Grunnskóli Vestmannaeyja 2021

Sævar Helgi Bragason
Við tókum viðtal við hann eina og sanna Stjörnu Sævar og spurðum hann spurningar um umhverfismál. Hann var algjört yndi og svaraði spurningum okkar mjög heiðarlega og vel. Ef þið vitið ekki þá hefur Sævar verið í margskonar þáttum tengt umhverfismálum og ef þú vilt horfa á þá endilega kíktu á RÚV, því þar eru ýmislegir áhugaverðir þættir um umhverfismál.
Hér að neðan getur þú séð viðtalið

Hvernig fékkst þú áhuga þinn á umhverfismálum/stjörnufræði?
„Ég fékk áhuga minn á umhverfismálum í gegnum stjörnufræði og jarðfræði. Því meira sem ég læri um aðrar plánetur, eins og Mars og Venus og aðra staði í sólkerfinu og öðrum sólkerfum, þeim mun merkilegri, dýrmætari og áhugaverðari er Jörðin. Hún er algjörlega einstök vegna þess að á Jörðinni er líf. En aðstæðurnar eru ekki sjálfsagðar og það þarf lítið út af að bregða til þess að aðstæðurnar breytast til hins verra. Allt lífið er líka samhofið í eitt vistkerfi. Til þess að við höfum það gott þarf allt vistkerfið að vera hreint og í góðu lagi. Við mennirnir erum að breyta því , hratt, því miður.“
Hverjar eru þínar helstu áhyggjur?
„Loftlagsmál. Saga Jarðar sýnir að þegar loftslagið breytist, þá breytist ansi margt sem er hreint ekki gott fyrir læifið sem er efst í fæðukeðjunni. Breytingar á veðurfari leiða til þess að það verður erfiðara fyrir jarðarbúa að draga fram lífið. Loftlagsbreytingar leiða nefnilega til breytinga á matvælaframleiðslu, búsvæðum dýra sem eru okkur lífsnauðsynleg í vistkerfinu og auka álag á strendur heimsins, ísinn, sjóinn, andrúmsloftið og mannlegt samfélag. Loftlagsbreytingar magna líka upp fækkun dýrategunda. Við höfum áhyggjur af loftlagsbreytingum vegna þess að svo margt getur breyst til hins verra. Það er miklu ódýrara fyrir okkur að bregðast við núna en að varpa ábyrgðinni yfir á ykkur og börnin ykkar. Mamma og pabbi og amma og afi eiga bara að taka til eftir partýið sitt, ekki þið.“
Ert með einhver ráð sem ekki margir vita ekki af til þess að vera meira umhverfisvæn/ni/t?
„Læra sem mest um náttúruna og umhverfismál og tala um umhverfismál við vini og ættingja. Sýnið þeim að ykkur er alvara. Þetta skiptir í alvörunni alveg ótrúlega miklu máli. Fullorðna fólkið veit oft mjög lítið um umhverfismál, svo ef það bregst illa við, spyrjið þá hvernig þau vita það sem þau vita. Það hvernig ég og þú göngum um Jörðina er ekki einkamál okkar. Þegar þið hafið aldur til, farið þá og kjósið fólk sem vill gera breytingarnar sem þarf að gera. Áhrifamestu breytingarnar koma nefnilega í gegnum stjórnvöld og fyrirtæki og þá að lokum einstaklinga. get lofað ykkur því að heimurinn verður bara betri. Svo er bara að gera sitt besta. Reyna að hjóla og labba sem mest, huga að mataræðinu (borða meira grænt og minna kjöt og hætta að henda mat) og neyslunni. Allt skiptir máli, sama hversu lítið það er, það telur nefnilega á endanum. Ég reyni þetta allt saman sjálfur. Stundum tekst vel og stundum ekki. Helsti kosturinn er að maður sparar mikla peninga, hreifir sig meira og líður því betur líkamlega og andlega. Win win fyrir þig og umhverfið nýtur góðs af.“
Hvað kom þér mest á óvart varðandi umhverfismál?
„Hvað við erum illa að okkur um umhverfismál. Hvað við pælum lítið í áhrifunum sem við höfum á umhverfið. Að margir halda að ef við sjáum ekki mengunina, þá sé hún ekki til. Það kemur mér líka alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk er almennt illa að sér um náttúruna. Svo kemur alltaf á óvart að sjá og heyra fólk neita að horfast í augu við vandann."
Ert þú með einhverja kosti og galla tengt umhverfismálum
„Ég persónulega? Já fullt. Ég er eins og við öll með mína veikleika. Ég t.d. nenni ekki alltaf að hjóla og labba og keyri þá í staðinn. ég hef gaman af því að kaupa tæki og tól og borða stundum mat sem er ekkert sérstaklega umhverfisvænn. en mig langar að breyta kerfinu þannig að við getum gert flest það sem okkur finnst gaman að gera án þess að það skemmi út frá sér. Til þess að komast til útlanda þurfum við flugvél, svo hvernig gerum við flugvélar umhverfisvænar? Hvernig gerum við bílana okkar umhverfisvænni, matinn og varninginn sem við búum til? Lausnirnar eru til, við þurfum bara að tileinka okkur þær en eins og staðan er í dag þurfum við hjálp frá stjórnvöldum og fyrirtækjum. Mínir helstu kostir eru kannski þeir að ég á auðvelt með að breyta minni hegðun. Ég hjóla t.d. miklu meira en ég keyri, ég borða eiginlega aldrei kjöt og hef dregið stórlega úr allri neyslu. Ég nýti fötin mín betur og lengur og reyni að laga í stað þess að kaupa nýtt. Mest áhrif hef ég með því að fræða aðra og berjast fyrir breytingum.“
Að þínu mati heldur þú að Vestmannaeyjabær sé umhverfisvænn staður?
„Já og nei. Vestmannaeyjabær notar auðvitað endurnýjanlega orku fyrir rafmagn og hita. En þegar ég kem til Eyja, þá kemur það mér alltaf jafn mikið á óvart hvað Eyjamenn keyra mikið. Eyjan er pínulítil og vegalengdir örstuttar. Maður er enga stund að labba eða hjóla hvert sem er. Stundum er vont veður, rok og rigning, en ef maður fær sér rafhjól skiptir veðrið engu máli og svo má klæða sig í föt til að blotna ekki í rigningunni eða verða kalt. Svo þegar kemur að samgöngum eru Vestmannaeyjar alls ekki umhverfisvænar. Herjólfur er auðvitað orðinn rafknúinn og það er frábært framfaraskref. Sá svo að Hopp er komið til Eyja og fyrstu rafbílarnir þannig að þetta er allt að verða miklu betra.“
Hefur þú séð fyrir þær að búa til fleiri þætti?
„Já heldur betur. Loftlagsmálin eru bara ein hliðin á umhverfismálum. Í kringum okkur er t.d. ótrúlega mikið notað af eiturefnum sem hefur áhrif á bæði okkur og annað líf á Jörðinni. Svo eru önnur umhverfismál eins og of mikill raflýsing sem skipta máli,loftgæði og fleira. Ég ætla t.d. að fjalla um þetta líka í Nýjasta tækni og vísindi á RÚV.“
Hvetjandi tilvitnanir
